Færslur: 2024 Mars31.03.2024 21:36Skinney SF20 aflahæðst
Það stefnir í að þessi mánuður verði ansi fjörugur hjá togunrum
því þeir slást um toppinn
núna kom Skinney SF með 85 tonn í einni löndun og er orðin aflahæstur
STurla GK með 87 tonn í 1 og kominn í fjórða sætið
Drangey SK treður sér þarna up á milli minni skipanna.
Skrifað af Þorgeir 31.03.2024 12:47Sjóræningjar eða sægarparAf vef fiskifretta 25 ár liðin frá lokum hinnar hatrömmu Smugudeilu Norska strandgæslan fer um borð í Snæfugl SU frá Reyðarfirði. Deila Íslensk kona, búsett í smábæ í Noregi, kvartaði hástöfum yfir því haustið 1994 að allir Norðmenn sem hún þekkti væru svo helteknir af Smugudeilunni að nú kölluðu þeir húsið hennar aldrei annað en Smuguna! Þó að sagan sé skopleg sýnir hún ágætlega hversu illa Smuguveiðarnar lögðust í Norðmenn á sínum tíma. Með þeim urðu Íslendingar skúrkarnir í augum þeirra en ekki hetjur eigin frækilegu þorskastríða. Allt í einu sigldu íslensk veiðiskip með norsk varðskip og togvíraklippur á hælunum. Eftir Sindra Freysson. „Ég tel að íslensk skip ættu ekki að fara til veiða þarna. Það myndi skapa mikla úlfúð.” Svo mælti Þorsteinn Már Baldvinsson, framkvæmdastjóri Samherja, þegar dagblaðið DV spurði hann í júlílok 1993 hvort íslensk skip ættu að halda í Barentshafið til veiða. Tveimur vikum síðar fékk sjávarútvegsráðuneytið bréf frá stjórnendum Samherja og Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum þess efnis að skip félaganna væru á leið til veiða í Barentshafið.
Hagnaðarvon ræður förÞá hafði ríkt ládeyða á íslenskum miðum um alllangt skeið og aflabresturinn var farinn að bitna á fjárhag margra útgerða. Seinustu mánuði á undan höfðu hentifánatogarar í eigu Færeyinga sótt til veiða á alþjóðlegu hafsvæði í Barentshafi og landað í íslenskum höfnum fremur en á heimaslóðum – líklega fyrst og fremst vegna þess að færeysk stjórnvöld höfðu ekki lagt formlega blessun sína yfir veiðarnar. Færeysku skipin létu vel af aflabrögðum í Barentshafi, en um var að ræða annars vegar svæði við Svalbarða og hins vegar svæði sem nefndist Smugan eða Smutthullet og liggur þar sem 200 mílna lögsögur Svalbarða og rússnesku eyjunnar Novaya Zemlya ná ekki saman til vesturs og austurs. Hæfileg óvissa ríkti um lagalegan rétt ríkja til svæðisins, og því kannski ekki að furða að íslenskar útgerðir létu tekjuvon ráða frekar en hámarks virðingu fyrir tilmælum Norðmanna.
Sjókortin seljast uppBrátt helltust fyrirspurnir um veiðarnar yfir starfsmenn Landssambands íslenskra útvegsmanna og öll tiltæk sjókort af veiðisvæðinu í Barentshafi seldust upp í Reykjavík á augabragði. Því var jafnvel haldið fram að íslenskir útgerðarmenn hefðu farið um borð í rússneska togara í höfn hérlendis og keypt sjókort af svæðinu fyrir eina viskíflösku. „Ef 15 íslenskir togarar fara á þessi mið eins og nú er útlit fyrir má með einföldum framreikningi gefa sér að aflaverðmæti þeirra nemi hátt í einn milljarð króna [um 3,5 milljarður kr. á núvirði framreiknað miðað við vísitölu neysluverðs] á hálfum mánuði,” sagði í frétt Morgunblaðsins þegar ljóst var að íslenskar útgerðir ætluðu að láta á veiðarnar reyna.
En áhættan var að sama skapi talsverð: Norsk varðskip höfðu stuggað við færeyskum togurum og talsverður kostnaður fylgdi veiðum á fjarlægum slóðum; til dæmis tók stímið á miðin heila fjóra daga. En menn mátu það svo að möguleikinn á hagnaði vægi þyngra en hættan samfara sjósókninni. Íslendingar höfðu raunar veitt í Barentshafi nokkrum áratugum fyrr, fyrst upp úr 1930, en það var langt um liðið. Fyrir því voru margar ástæður, m.a. hafði þorskstofninn í Barentshafi hrunið nokkrum árum áður. Norðmenn og Rússar lögðu ofurkapp á að byggja stofninn upp á nýjan leik og voru fráleitt tilbúnir til að láta færeyska eða íslenska „sjóræningja“ sækja í þessa viðkvæmu en verðmætu auðlind. Samúræjar í stríðsleikNorðmenn og Rússar brugðust fljótt að vonum ókvæða við veiðum Íslendinga og raunar fór fyrsti fundur á milli Íslendinga og Norðmanna í Smugudeilunni fram í norska sendiráðinu í Stokkhólmi strax í lok ágústmánaðar 1993. Norskir ráðherrar utanríkismála og sjávarútvegsmála fóru fyrir sinni sendinefnd og Jón Baldvin Hannibalsson, þáverandi utanríkisráðherra, fór fyrir íslensku sendinefndinni. Fundurinn varð stuttur og endasleppur og þótti Íslendingum ljóst að Norðmenn hefðu meiri áhuga á að stöðva veiðarnar en að semja um þær. Jón Baldvin hélt því fram eftir fundinn að Íslendingar hefðu hitt fyrir „samúræja í stríðsleik, en ekki skynsama norræna stjórnmálamenn í samningahug“. Veiðarnar skiluðu hagnaðiVeiðarnar gengu vel síðsumars og á haustdögum 1993 og skiluðu hagnaði. Fljótt varð ljóst að fleiri íslenskar útgerðir hugsuðu sér gott til glóðarinnar á næstu vertíð og keyptu sumar jafnvel kvótalaus skip á kostakjörum í Kanada, sérstaklega í því skyni að senda í Barentshafið. Samtök útgerðarmanna í Noregi beittu norsk stjórnvöld miklum þrýstingi og heimtuðu að þau gripu til harðra aðgerða gegn íslensku sjóræningjunum, eins og þeir kölluðu íslensku veiðiskipin. „Það verður að ráðast að rót hins illa,“ sagði einn þykkjuþungur og herskár talsmaður norskra fiskveiðisamtaka í samtali við íslenska fjölmiðla. Þessar kröfur báru árangur. Mikil gandreiðÁ vormánuðum 1994 færðist aukin harka í deiluna þegar norskt varðskip rak þrjá íslenska togara aftur inn í Smuguna, þegar þeir ætluðu að færa sig um set að verndarsvæði vestur af Svalbarða. Um sumarið urðu árekstrarnir enn tíðari. Þá voru nokkrir tugir íslenskra skipa að veiðum þar, með allt að 800 sjómenn um borð. Í júní 1994 skaut norska strandgæsluskipið Stálbas viðvörunarskotum að íslenskum togurum á miðunum við Svalbarða og skar á togvíra. Og Hágangur II, skip sem keypt hafði verið sérstaklega til þessara veiða og var skráð í Belís þótt það væri í eigu Hraðfrystistöðvar Þórshafnar og Tanga á Vopnafirði, fékk betur en nokkurt annað íslenskt skip að kynnast reiði Norðmanna. Þeir höfðu sent á vettvang herskip til að reyna að hindra veiðarnar, einkum á Svalbarðasvæðinu, þar á meðal nokkur öflugustu skipin í flota sínum, svo sem Kv. Andenes, Kv. Nordkapp og Kv. Senja. Eiríkur Sigurðsson, sem var skipstjóri á Hágangi II á þessum árum, lýsti átökunum svo: „Senja var feikiöflugt skip og ógnvekjandi þegar hún kom stundum dansandi á yfir 20 sjómílna fart og stefndi út og suður, en beygði á síðustu stundu til að forða árekstri. Var það mikil gandreið. Drunurnar í þessu hrossastóði voru skelfilegar þegar þeim var hleypt á skeið og fóðrið ekki skorið við nögl.“
Sáu herskipið í gegnum skotgötinNorðmenn höfðu meira að segja komið sér upp togvíraklippum, samskonar þeim sem Íslendingar höfðu beitt með frábærum árangri gegn veiðum breskra togara í Þorskastríðunum. En öfugt við frændur sína hér náðu Norðmenn aldrei sérstaklega góðum tökum á klippunum. Ekki bætti úr skák að þegar þeir ætluðu sér að klippa lét Eiríkur stundum toghlerana síga útbyrðis en geymdi trollið á dekkinu. Norðmennirnir áttuðu sig ekki á þessum hrekk og „rúntuðu einsog rófulausir rakkar, með klippurnar úti, í kringum okkur á mikilli ferð þannig að boðaföllin stóðu í allar áttir, tímunum saman. Þetta var vægast sagt vafasöm sjómennska.“ Morðtilræðið meinta Hágangsmenn brugðust líka einu sinni við ágangi norsku sjóliðanna með því að stýrimaður hleypti af haglabyssu upp í loftið. Sá gjörningur dró heilmikinn dilk á eftir sér. Norski skipherrann taldi sjóliðana hafa verið í bráðri lífshættu og heimtaði að Eiríkur stöðvaði skipið til að hann gæti sent menn um borð til að rannsaka meint morðtilræði. Eiríkur neitaði og setti á fulla ferð í átt til Íslands. Senja fylgdi á eftir og endaði með því að skjóta á Hágang II. „Þeir komu sér í færi og skutu einu skoti aftarlega á skipið, ofan sjólínu. Það var mikið högg og glumdi í skipinu. Síðan kom annað skot, með engu minni látum, sem virtist koma á svipaðan stað … Við yfirvélstjórinn fórum í könnunarleiðangur og sáum fljótlega götin. Miðað hafði verið á stýrisvélina og hún lítillega skemmd en samt gangfær. Götin voru bæði rétt fyrir ofan sjólínu og við sáum Senju út um þau.“
Stungið í steininnSenja skaut þriðja skotinu þegar Eiríkur reyndi að sigla áfram og þá sá hann sæng sína uppreidda, enda ljóst að Norðmenn væru tilbúnir að ganga alla leið og sökkva Hágangi II ef hann færi ekki að fyrirmælum þeirra. Skipið var síðan dregið til Tromsö og Eiríki og stýrimanninum sem skotið hafði úr haglabyssunni stungið í fangelsi, fyrrnefnda yfir nótt en þeim síðarnefnda í nokkrar nætur. Skipverjar í lífshættuNú var öll miskunn úti hjá norsku herskipunum. Fyrir utan að skjóta viðvörunarskotum að íslenskum skipum klipptu þau aftan úr þremur togurum, Blika, Hágangi II og Hegranesi, og gerðu tilraun til að klippa aftan úr Stakfelli, en þá tókst ekki betur til en svo að Norðmenn glötuðu klippunum. Aðfaranótt 19. júní reyndi svo Senja trekk í trekk að klippa á togvíra Más SH, en fjögur íslensk skip freistuðu þess að skýla Má með því að safnast í hnapp í kringum hann. Senja sigldi á fullri ferð aðeins örfáa metra framan við Drangey SK, eitt skipanna fjögurra. „Ég set skipið á fulla ferð aftur á bak. Ég sá að við mundum ekki sleppa fram fyrir hana. Svo sér maður bara gráan vegginn koma fyrir stefnið og við vorum ekki viss um það fyrst hvort við myndum lenda á honum eða ekki. Það var það stutt á milli,“ sagði Björn Jónasson, skipstjóri á Drangey. „Ef skipið hefði ekki verið svona fljótt að taka við sér aftur á bak hefði hann sniðið framendann af og mennina sem voru sofandi fram í hefði hann steindrepið.“ Í skeyti sem Björn sendi útgerð skipsins í kjölfarið sagði hann: „Hér í nótt hafa skeð hreint ótrúlegir atburðir og er mesta mildi að einhverju skipanna hafi ekki verið sökkt.“ Skipin Björgúlfur og Óttar Birtingur, sem voru þá að veiðum á Svalbarðasvæðinu, voru færð til hafnar í septemberlok og útgerðir þeirra sektaðar um háar fjárhæðir. Varðskipið „SAS“Hörkulegar aðgerðir Norðmanna gegn veiðum á Svalbarðasvæðinu urðu til þess að íslensk skip einbeittu sér frekar að Smugunni. Um líkt leyti lýsti Vladímír Korelskíj, þáverandi sjávarútvegsráðherra Rússlands, því yfir að sókn Íslendinga í Barentshafi væru „sjóræningjaveiðar“ og að Rússa íhuguðu að hætta öllu samstarfi við íslensku ríkisstjórnina. Þá var fullyrt að rússneska strand gæslan stefndi á eftirlit í Smugunni á næstu vikum. Íslensk stjórnvöld brugðust við með því að senda varðskipið Óðinn til Smugunnar, fyrst og fremst í þágu öryggis þeirra fjölmörgu íslensku sjómanna sem þar störfuðu við erfiðar aðstæður. Varðskipið gæti veitt þeim neyðarþjónustu og læknishjálp. Íslensku sjómennirnir voru þakklátir fyrir nálægðina við Óðin og kölluðu varðskipið iðulega SAS, sem stóð fyrir Smuthullets Akademisk Sjukhus. Óðinn þjónaði gríðarstóru svæði og skipin voru mörg. 63 sjúklingar„Það var stórfenglegt að labba upp á þilfar á Óðni og sjá alla þessa togara í kringum okkur, svo tugum skipti. Þetta var mikill kúnnafjöldi,“ sagði Sigurður Ásgeir Kristinsson, sem var læknir um borð. Þegar Óðinn sigldi heim eftir tveggja mánaða úthald var Sigurður búinn að hafa afskipti af sjúklingum í 120 skipti og sjúklingarnir urðu 63 talsins. Meiri kuldi, minni fiskurVeiðarnir gengu vel 1994 og taldar hafa skilað þjóðarbúinu um 5 milljörðum króna á þávirði. Aflabrögð voru sömuleiðis góð árið á eftir. Vorið 1995 var úthafsveiðiráðstefna Sameinuðu þjóðanna haldin í New York og fóru þar fram óformlegar viðræður á milli Íslendinga og Norðmanna um Smugumálin. Um það leyti höfðu heyrst fleiri raddir í Noregi um að heppilegast væri að semja og veita Íslendingum ákveðinn kvóta í Smugunni. Með þeim skilyrðum þó að heppileg niðurstaða fengist um hvernig standa bæri að heildarfiskveiðistjórnun utan Iögsögu í Norður-Atlantshafi. Ekkert varð þó af samingum. En önnur máttaröfl og voldugri en karpandi samninganefndir höfðu hins vegar ríkuleg áhrif á þróun Smuguveiði. Um miðjan tíunda áratuginn kólnaði á svæðinu og sjávarhiti varð óvenjulega lágur næstu vertíðir, og dró mjög úr veiði. Því var sífellt minna þangað að sækja og færra að deila um þegar íslensk skipum fækkaði ört á svæðinu. Árið 1997 hrundi veiðin alveg og árið á eftir nam veiðin aðeins um 1.500 tonnum. Í byrjun desember 1997 hittust utanríkisráðherrar Íslands, Noregs og Rússlands í Moskvu og reyndu að semja um niðurstöðu í Smugudeilunni. Sá fundur bar ekki mikinn árangur, en séra Kjell Magne Bondevik, þáverandi forsætisráðherra Noregs, sagði þó í viðtali við íslenska fjölmiðla upp úr áramótum 1998 að Smugudeilan yrði leyst á næstu mánuðum. Fljótlega kom hins vegar babb í bátinn þegar Norðmenn voru staðnir að njósnastarfsemi í Rússlandi. Frostkuldi breiddist yfir samskipti þeirra tveggja þjóða, þar á meðal um hugsanlega samninga um veiðiréttarmál, og málið fór í biðstöðu að sinni. Bankarán sem varð að úttekt í hraðbankaSamningar um lausn Smugudeilunnar voru undirritaðir í Moskvu í byrjun apríl 1999, eftir samningalotu sem staðið hafði í um hálft annað ár með hléum. Um þessar mundir eru því 25 ár síðan deilan var leidd til lykta. Í þríhliða samkomulagi Íslands, Rússlands og Noregs var kveðið á um að Íslendingar fengju það ár 8.900 lesta þorskkvóta, sem skiptist til helminga milli lögsögu Noregs og Rússlands. Ef leyfilegur heildarafli á þorski í Barentshafi færi niður fyrir 350 þúsund lestir, féllu veiðar Íslendingar úr stofninum niður, og einnig veiðar norskra fiskiskipa í íslenskri lögsögu. Á blaðamannafundi þegar niðurstaðan var kynnt fullyrti Halldór Ásgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra, að samningurinn væri mikið fagnaðarefni og Íslendingum hagstæður. Útvegsmenn töldu samninginn hins vegar rýran í roðinu og í raun og veru fæli hann í sér að veiðiheimildir Íslendingar væru aðeins 5.000 tonn. „Efni samningsins er ekki í samræmi við þær væntingar sem við höfðum, meðal annars með tilliti til þess sem við höfum kostað til að senda skip í Barentshafið. Þá er samningurinn heldur ekki í samræmi við þær væntingar sem stjórnvöld hafa gefið okkur um stuðning við sókn á þessi mið,“ sagði Kristján Ragnarsson, formaður Landssambands íslenskra útvegsmanna, af því tilefni. Viðbrögð annarra hagsmunaaðila voru jákvæðari. Deilan hafði hafði um árabil haft margháttuð áhrif á samskipti íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja við Norðmenn og Rússa, einkum innflytjenda Rússafisks. Hún tafði verulega alla afgreiðslu á erindum milli þeirra aðila og stóð að auki í vegi fyrir landvinningum íslenskra fyrirtækja í austurvegi, á þeim tíma sem vestræn fyrirtæki kepptust við að fá verkefni við uppbyggingu rússneska togaraflotans. Þau fyrirtæki fögnuðu því mjög þegar Smugudeilan var leyst. Í meistararitgerð Arnórs Snæbjörnssonar um Smugudeiluna segir að viðbrögð í Rússlandi og Noregi hafi verið blendin og menn ekki á eitt sáttir um hvort niðurstaðan væri Íslendingum hagstæð eða hinum þjóðunum tveimur. Einn þeirra sem tjáði sig í Noregi lýsti þó yfir ánægju sinni og kvaðst telja að niðurstaðan væri sú að með henni hefði „bankarán Íslendinga í Barentshafi breyst í litla úttekt úr hraðbanka“. Hvort lausn deilunnar hafi orðið til þess að Norðmennirnir í sjávarþorpinu sem sagt var frá í upphafi, hafi hætt að kalla hús íslensku konunnar Smuguna, skal ósagt látið. Skrifað af Þorgeir 29.03.2024 00:12Flutningaskip tók niðri í Fáskrúðsfirði
Flutningaskipið Key Bora, sem siglir undir fána Gíbraltar, tók niðri í Fáskrúðsfirði í dag og varð bilun í stýrisbúnaði. Skipið losnaði af sjálfsdáðum og er nú fylgt upp í höfn. Þetta segir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, í samtali við mbl.is. Útkallið barst björgunarsveitinni klukkan 14.15 en bilun varð í stýrinu og tók skipið vinkilbeygju neðan við bæinn Kappeyri. Skipið losnaði af sjálfdáðum korteri fyrir klukkan þrjú. Björgunarskipið Hafdís var sent á vettvang frá Neskaupstað og aðeins 10 mínútum eftir að útkallið barst var Hafdís mætt að Key Bora. Engar skemmdir eru sjáanlegar á skipinu að sögn Jóns. Hafdís fylgir nú skipinu í höfn á Fáskrúðsfirði. Skrifað af Þorgeir 28.03.2024 08:49Grindvikingar halda sjómannadaginn i ReykjavikSjóarinn síkáti verður haldinn á GrandaAríel og Eggert handsöluðu samkomulagið um hátíðarhöldin um borð í Fjölni. mbl.is/Árni Sæberg
Sjómannadagshátíðin Sjóarinn síkáti, sem haldin hefur verið í Grindavík í rúman aldarfjórðung, verður haldin við Reykjavíkurhöfn í ár í ljósi aðstæðna í Grindavíkurbæ. Samkomulag þess efnis var handsalað um borð í Fjölni GK 157, sem liggur við höfnina á Granda, í gær. Mikil spenna er fyrir hátíðinni sem hefur verið í undirbúningi frá því snemma árs, eða allt frá því að Aríel Pétursson, formaður Sjómannadagsráðs, hafði samband við Eggert Sólberg Jónsson, sviðsstjóra frístunda- og menningarsviðs Grindavíkur, og bauð Grindvíkingum að taka þátt í hátíðinni. Eggert segir Grindavíkurbæ ekki hafa þurft langan umhugsunarfrest enda rík hefð fyrir hátíðahöldum af tilefni sjómannadagsins í Grindavík. Þar með voru Grindvíkingar gerðir að heiðursgestum sjómannadagsins í Reykjavík þetta árið og segir Aríel að öllu verði tjaldað til til að taka vel á móti heiðursgestunum sem fá nú heimaskjól fyrir Sjóarann síkáta við höfnina á Granda. Skrifað af Þorgeir 25.03.2024 00:43Hvalshræ i Eyjafirðiþað var ekki skemmtilegt að rekast á þetta hvalshræ i bakgarðinum hjá okkur Akureyringum i dag sennilega er þetta hvalurinn sem að strandaði við Hrisey og hefur svo rekið hérna inneftir i brælunni um daginn mynd þorgeir Baldursson
Skrifað af Þorgeir 23.03.2024 09:0654 hol í seinni hluta rallsins
Gullver NS kom til Seyðisfjarðar í gærmorgun að aflokinni þátttöku í togararalli. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Hjálmar Ólaf Bjarnason skipstjóra og spurði hvernig hefði gengið. „Ég var einungis með skipið seinni hluta rallsins en Steinþór Hálfdanarson var með það í fyrri hlutanum. Í þessum seinni hluta tókum við 54 hol af 151 sem Gullver tók í heildina á norðaustursvæðinu. Þessi seinni hluti tók rúma fimm daga. Við byrjuðum á að fara út á Þórsbanka og í Rósagarðinn og síðan var farið upp á Breiðdalsgrunn, á Gula teppið og loks á Tangaflak, Gerpisflak og Glettinganesgrunn. Þetta gekk bara vel og veðrið slapp til. Við gátum verið að allan tímann. Afli var hins vegar ekki mikill eins og yfirleitt er í ralli á þessu svæði. Þetta er í fyrsta sinn sem ég er með skip í ralli og samstarfið við starfsmenn Hafrannsóknastofnunar var eins og best verður á kosið. Nú verða rallveiðarfærin frá Hafrannsóknastofnun tekin í land og við tökum okkar eigin um borð. Það er skítaspá framundan og ég á varla von á því að haldið verði til veiða fyrr en seinni part föstudags,” segir Hjálmar Ólafur. Heimild Svn.is Skrifað af Þorgeir 21.03.2024 21:21Bjarni Ólafsson AK til sölu
Skrifað af Þorgeir 19.03.2024 22:58Mikið að gera slippnum á Akureyri
Skrifað af Þorgeir 18.03.2024 21:19Hliðarfjall á góðum degi
Skrifað af Þorgeir 16.03.2024 17:15Hjalteyri i veðurbliðunni i dagÞað Var alldeilis veðubliðann i Eyjafirði i dag þó að kalt væri um -4 stiga frost þegar kaldast var en hlýnaði þegar leið á daginn og sólin skein hátt og ylaði kroppinn talsvert af fólki á ferðinni
Skrifað af Þorgeir 16.03.2024 00:08Aðgerð um borð i Sóley Sigurjóns GK
Skrifað af Þorgeir 14.03.2024 22:41Tafir á afhendingu Sigurbjargar ÁRTafirnar draga úr hagkvæmni við bolfiskveiðar ÍsfélagsinsSigurbjörg ÁR var sjósett í Tyrklandi í ágúst í fyrra. af vef www.fiskifrettir.is Umtalsverðar tafir hafa orðið á afhendingu nýs ísfisktogara Ísfélagsins sem smíðaður er hjá Celiktrans skipasmíðastöðinni í Tyrklandi. Upphaflega stóð til að skipið yrði afhent í desember á síðasta ári en nú virðist sem það verði í fyrsta lagi um miðjan maí. Ragnar Aðalsteinsson, útgerðarstjóri hjá Ísfélaginu, er staddur í Tyrklandi og hefur þar ásamt öðrum eftirlit með smíðinni. Það er svo sem lítið nýnæmi því þar hafa Ísfélagsmenn verið með annan fótinn frá því í janúar 2022. Hann sagði það vissulega vonbrigði hve tafist hafi að klára skipið en það sé þó ekki óalgengt í smíði nýrra skipa. „Skipulagið virðist ekki vera betra. Það hafa vissulega orðið tafir á afhendingu á búnaði en það hefði ekki átt að leiða til þessara tafa. Það má nánast undantekningarlaust búast við svona seinkunum en þó kannski ekki svona mikilli seinkun,“ segir Ragnar. Ekki ljóst hvaða skipi verður lagtHann segir að þetta komi sér auðvitað illa. Menn bjuggust við afhendingu á réttum tíma og að skipið gæti verið farið að fiska. Engin önnur tímasetning á afhendingu skipsins hefur verið gefin upp en hann telur þó líklegt að það gæti orðið innan næstu tveggja mánaða. Sigurbjörg ÁR verður gerð út á bolfiskveiðar og humarveiðar þegar þær verða heimilaðar á ný.
Þrjú skip annast bolfiskveiðar Ísfélagsins núna, þ.e. Ottó N. Þorláksson, Dala-Rafn og Jón á Hofi. Einu af þessum skipum verður lagt þegar Sigurbjörgin verður loks afhent. Ragnar segir að það liggi ekki endanlega fyrir hvaða skip víkur. Tafirnar á afhendingu nýja skipsins koma því engan veginn niður á getu Ísfélagsins til að ná sínum bolfiskkvóta á fiskveiðiárinu. En til stóð að standa að veiðunum með hagkvæmari hætti með nýju skipi. Skrifað af Þorgeir 14.03.2024 22:23Frqystrand á Fáskrúðfirði
Skrifað af Þorgeir 14.03.2024 21:46TF Sýn kominn á flugsafnið á Akureyri
Skrifað af Þorgeir 14.03.2024 14:48Hlé á rallinu hjá Gullver
Gullver NS kom til Seyðisfjarðar í gær eftir að hafa lokið tveimur þriðju af yfirstandandi ralli. Afli skipsins var 27 tonn. Gullver tekur nú þátt í togararallinu í fjórða sinn en önnur skip sem taka þátt í verkefninu eru togarinn Breki og hafrannsóknaskipin Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson. Heimasíðan ræddi við Steinþór Hálfdanarson skipstjóra og spurði hvernig hefði gengið til þessa. „Það hefur gengið einstaklega vel enda hefur verið blíða allan tímann sem er óvenjulegt á þessum árstíma. Við á Gullver erum búnir að taka 98 hol af þeim 151 sem okkur er ætlað að taka. Okkar verkefni er að sinna hinu svonefnda norðaustursvæði. Við byrjuðum á Glettingi og héldum síðan norður eftir allt vestur fyrir Skjálfanda. Síðan var haldið austur um á ný og endað á Glettingi, á sama stað og við byrjuðum. Í seinni hluta rallsins mun Gullver fara suður á Breiðdalsgrunn og síðan á Þórsbanka og Verkamannabanka alveg að færeysku lögsögunni og austur að Kremlarmúr. Aflinn sem við erum með er ekki mikill og er það í reynd samkvæmt venju. Við höfum ekki orðið varir við neina loðnu og er það óvenjulegt. Nú fer ég í land og Hjálmar Ólafur Bjarnason leysir mig af. Það má gera ráð fyrir að seinni hluti rallsins hjá Gullver taki eina fjóra eða fimm daga, en í fyrri hlutanum vorum við að jafnaði að taka 12 hol á dag,“ segir Steinþór. Skrifað af Þorgeir |
Eldra efni
Um mig Nafn: Þorgeir BaldurssonFarsími: 8620479Tölvupóstfang: thorgeirbald62@gmail.comHeimilisfang: Reynihlið 15 D 604 HörgárbyggðStaðsetning: HörgárbyggðUm: Fréttaritari Morgunblaðsins til sjávar og sveita og öll Almenn Ljósmyndun sem að tengist SjávarútvegiTenglar
Flettingar í dag: 3025 Gestir í dag: 60 Flettingar í gær: 1455 Gestir í gær: 74 Samtals flettingar: 994446 Samtals gestir: 48567 Tölur uppfærðar: 21.11.2024 13:46:41 |
© 2024 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is